Blog

Bólgur – Hvernig tengjast þær mér?

Bólgur eru eðlilegt viðbragð ónæmiskerfisins þegar ógn steðjar að en við getum með lífsstíl okkar haft mikil áhrif á bólgur í líkamanum. Psoriasis og exem eru bólgusjúkdómar, þrátt fyrir að vera mjög ólíkir sjúkdómar í eðli sínu

 

Bólgur eru það sem á ensku nefnist „inflammation“. Þær eru varnarsvar líkamans við áverkum, skemmd eða árás t.d. sýklaárás. Ónæmiskerfið stýrir vörnum líkamans og bólgusvörun. Eðlileg bólgusvörun er varnarkerfi líkamans gegn sjúkdómum. Ef allt er eðlilegt stöðvast framleiðsla bólguvaka að viðgerð lokinni. Haldi líkaminn hins vegar áfram að framleiða bólgumyndandi boðefni, getur það leitt til þrálátrar bólgu á lágu stigi. Langvinn og óeðlileg bólgusvörun getur verið skaðleg og valdið offitu3 og erfiðum sjúkdómum. Þar má nefna sjúkdóma eins og liðagigt, kransæðasjúkdóma, alzheimer og ýmsar tegundir krabbameins.

 

Hins vegar vita færri að undirliggjandi bólga ýtir undir einkenni psoriasis í húð og liðum og exems.

Psoriasis er langvarandi sjálfsofnæmis- og bólgusjúkdómur sem ekki er til nein lækning við. Meðferðir við psoriasis miðast við að halda einkennum niðri því sjúkdómurinn einkennist af versnun og betrun. Sjúkdómurinn felur í sér offjölgun keratínfruma og talið er að 2-3% fólks séu með psoriasis. Sjúkdómurinn birtist annars vegar í húð og hins vegar í liðum.

 

Flestir þróa fyrst með sér húðeinkenni og um 10-40% þeirra sem fá húðeinkenni fá einkenni í liði líka. Þó er hægt að fá psoriasis eingöngu í liði þó það sé sjaldgæfara en hitt.

Sjúkdómurinn er arfgengur en umhverfisþættir geta líka haft áhrif á einkenni hans. Einkenni sjálfsofnæmissjúkdóma er að ónæmis- viðbragð beinist gegn heilbrigðum vefjum líkamans, veldur bólgum og síðan skemmd á líkamshlutum. Psoriasis í húð einkennist af hreistrun, kláða og roða í húð. Psoriasisgigt einkennist af bólguviðbragði sem leggst einkum á liði en hefur ákveðin tengsl við bólgu í öðrum vefjum. Liðbólgur vegna psoriasisgigt- ar geta leitt til óafturkræfs skaða á liðum með færniskerðingu.
Exem er krónískur bólgusjúkdómur í húð sem byrjar oft með kláða og roða. Síðar myndast vessafylltar blöðrur eða rauðleitir hnútar sem geta sprungið og myndað vessandi sár. Exemið þróast að lokum yfir í þurrara stig þegar vessinn þornar og hrúður myndast. Helstu orsakir exems eru ofnæmi, erfðaþættir eða ef líkaminn er í sífelldri snertingu við efni sem skaðar hann.

Hvað get ég gert til að halda bólgum niðri?

Líkt og fram hefur komið eru bólgur eðlilegt svar ónæmiskerfi- sins þegar ógn steðjar að en við getum með lífsstíl okkar haft mikil áhrif á bólgur í líkamanum. Sterkt ónæmiskerfi er öflugasta vörnin.

Regluleg hreyfing er mikilvæg samhliða góðu mataræði og góðum svefni til að minnka bólgur í líkamanum. Gott viðmið er að líkaminn fari úr hvíldarpúls í æfingarpúls svo maður svitni, að minnsta kosti tvo og hálfan tíma á viku.

Góður nætursvefn ef jafnframt mjög mikilvægur og rannsóknir hafa sýnt fram á að skertur nætursvefn eykur bólgumyndun í líkamanum. Reglulegur svefntími, rólegheit fyrir svefn og minnkun á áreiti á kvöldin eru heilræði við betri svefni. Minna áreiti getur einkum falist í að slökkva á, eða minnka áreiti frá tölvum og símum.

Mataræði er annar þáttur sem getur haft áhrif á bólgur. Líkaminn okkar beitir sínum ráðum til að láta okkur vita hvort fæðan sem við neytum sé nægilega góð eða ekki. Húðin er stærsta líffæri mannsins og margir taugaendar eru í henni og þess vegna birtast í henni margir kvillar sem tengjast streitu og áreiti. Ofsakláði er dæmi um ofnæmisviðbragð við fæðu eða öðru áreiti á ónæmiskerfið sem birtist í húð með mörgum litlum eða stórum kláðablettum. Einkenni þessara bletta hverfa innan nokkurra klukkustunda og birtast oft síðar annars staðar. Samsetning fæðu, næringarskortur, of margar kalóríur, melting- artruflanir og fæðuofnæmi eða óþol endurspeglast allt í húðinni.

En hvernig mat eigum við þá að borða?

Nútímamaðurinn innbyrðir of margar hitaeiningar en er í senn vannærður í þeim skilningi að hann fær of lítið af raunverulegum næringarefnum. Mikilvægt er að skoða gæði þeirra hitaeininga sem við neytum og ættum við að leggja áherslu á næringarþéttni matvælanna, að þau innihaldi trefjar, vítamín, steinefni og plöntuefni. Fitusýrur sem auka bólgumyndun kallast Omega 6 fitusýrur sem eru í kjötmeti og ýmsum jurtaolíum (maísolíu og sojaolíu). Gott er að draga úr inntöku á afurðum sem innihalda Omega 6. Omega 3 fitusýrur eru hinsvegar bólguminnkandi og þær eru í fiski, lýsi og grænu grænmeti. Því er mælt með inntöku á lýsi og að bjóða upp á fisk 2-4 sinnum í viku til að auka „góðu fitusýrurnar“ í líkamanum. Jafnframt er mælt með ríkulegri neyslu á ávöxtum og grænmeti því andoxunarefnin og flavoníðar sem finnast í þeim hafa bólguminnkandi virkni. Notkun lauks, hvítlauks, engifers, karrý og rósmaríns er einnig gott gegn bólgum. Dragið úr sykur- og fituneyslu, einkum dýrafitu og takið C og D vítamín. Sumum hentar jafnframt að forðast kartöflur, tómata, unnar kjötvörur og osta.15 Við val á mat er best að leggja áherslu á góð næringarefni og að forðast tómar hitaeiningar.
Lykillinn að heilsusamlegra lífi felst einkum í því að skoða hvaða vísbendingar líkaminn er að senda okkur. Bólguminni lífsstíll felst í að minnka streitu og regluleg hugleiðsla getur kennt okkur skipta um takt, draga djúpt andann og læra að hlusta á eigin líkama.

Post a comment