Blog

Psoriasisgigt og hreyfing
Hrefna Indriðadóttir sjúkraþjálfi

Hreyfing er nauðsynleg öllum með gigtarsjúkdóma og mestu máli skiptir að velja sér hreyfingu sem manni finnst skemmtileg og reyna að finna leiðir til að aðlaga hana að líðan

Psoriasisgigt

Psoriasisgigt er bólgu- og gigtarsjúkdómur sem er oftast samfara húðeinkennum psoriasis. Í sumum tilvikum koma þó eingöngu fram gigtareinkenni. Einkenni psoriasisgigtar eru ekki einsleit. Algengust eru einkenni í stærri liðum, sérstaklega í neðri útlimum. Einnig getur psoriasis gigt lagst á smáliði handa og fóta og á úlnliði og eru þá einkenni yfirleitt báðum megin. Enn önnur birtingarmynd psoriasisgigtar eru liðbólgur í spjaldliðum og hrygg. Sjaldgæfasta birtingarmynd psoriasisgigtar er svo P A mutilans þar sem beinvefur eyðist og gerist það aðallega í höndum. Psoriasisgigt fylgja oft festumein, eða bólgur þar sem sinar og liðbönd festast á bein. Einkenni gigtarinnar geta verið sveiflukennd, allt frá vægum einkennum í tímabil þar sem bólgur, verkir og stirðleiki blossa upp.

 

Hreyfing er nauðsynlegt

Aðal umkvörtunarefni fólks með psoriasisgigt eru liðverkir, liðbólgur og stirðleiki. Það kemur því ekki á óvart að fólk með gigtarsjúkdóma hreyfi sig minna en heilbrigðir jafnaldrar. Sumir upplifa hræðslu við að hreyfing auki á verki og þreytu og skemmi jafnvel liði. En ávinningurinn af reglubundinni hreyfingu er gríðarlegur.
Betra er að eiga við verki, liðleiki eykst, vöðvastyrkur eykst og bein styrkjast. Hreyfing getur hjálpað til við þyngdarstjórnun, jafnvægi og samhæfing batna, streita minnkar, fólk sefur betur og upplifir minni þreytu, orka eykst og þol og úthald verður betra.

 

Hvers konar hreyfing er best?

Hreyfing þarf helst að byggjast upp á 4 þáttum:

Liðleikaþjálfun – er ætluð til þess að hjálpa til við að viðhalda eða bæta hreyfanleika í liðum. Hægt er að hreyfa endurtekið í gegnum liðferil til þess að liðka eða teygja vöðvana. Liðferilsæfingar að kvöldi geta bætt svefn og dregið úr morgunstirðleika og liðferilsæfingar að morgni geta hraðað því að morgunstirðleiki líði hjá.

Styrkjandi æfingar – styrkari vöðvar styðja betur við liði og minnka álag á liðina. Einnig hafa þær jákvæð áhrif á beinþéttni og gera allar almennar athafnir auðveldari. Nýleg rannsókn, þar sem fólk með psoriasis gigt fór í 12 vikna styrktarþjálfun, sýndi fram á minni virkni sjúkdómsins eftir 12 vikur.

Þolþjálfun – bætir virkni hjarta, lungna og vöðva. Æfingar sem nota stóru vöðva líkamans á endurtekinn og taktfastan hátt og hækka púls. Meðalþungt álag er öruggt og áhrifaríkt og gott er að miða við að hægt sé að tala eðlilega á meðan þjálfun stendur.

Líkamsvitundaræfingar – eru æfingar sem hafa áhrif á jafnvægi, líkamsstöðu og beitingu, tilfinningu fyrir stöðu liða, samhæfingu og slökun.

 

Hvenær er best að æfa?

Með því að finna hvenær hentar hverjum og einum best að æfa verður auðveldara að byggja upp vana og upplifa vellíðan við hreyfingu. Sé morgunstirðleiki vandamál er oft gagnlegt að gera eingöngu liðferilsæfingar á morgnana.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) mælir með því að æfa með meðal álagi í 150 mínútur á viku fyrir fólk á aldrinum 18-64 ára en ef þreyta er vandamál má brjóta æfingatíma upp yfir daginn í 2-3 tíu mínútna lotur til þess að byrja með. Best er að gera ekki kröftugar æfingar 2 tímum fyrir svefn, hins vegar geta liðferils- æfingar og slökun hjálpað og haft jákvæð áhrif á svefngæði.

Ef þreyta er vandamál er gott að skoða hvaða daga vikunnar er minnst álag og æfa þá helst á þeim dögum.

 

Hvaða þjálfun er best?

Mestu máli skiptir að velja sér hreyfingu sem manni finnst skemmtileg og reyna að finna leiðir til að aðlaga hana að líðan. Í sjúkdómsversnun þarf oft að minnka álag en samt er nauðsynlegt að halda einhverri virkni. Sumum hentar hópþjálfun. Yoga, pilates og tai chi eru dæmi um æfingar sem bæta liðleika og líkamsvitund og valda litlu álagi á liði. Æfingar í vatni henta mörgum, þar er einnig unnið með liðleika og styrk og álag á liði mun minna en á þurru landi. Á höfuðborgarsvæðinu og kannski víðar er boðið upp á æfingar í innilaugum sem eru heitari en hefðbundnar sundlaugar. Ganga og hjólreiðar auka þol og hægt er að sækja líkamsræktarstöðvar og fara þar í þolþjálfunartæ- ki eins og hjól, gönguband og fjölþjálfa og gera svo styrkjandi æfingar í tækjum eða með laus lóð. Hægt er að byggja upp þol og styrk með því að æfa oftar í viku, æfa lengur í senn eða auka smám saman ákefð og þyngd.

 

Annað til að hafa í huga

Engir tveir eru eins og líðan og einkenni hvers og eins eru breytileg. Það er gott að byrja hreyfingu í samráði við sjúkraþjálf- ara og það skiptir máli að gott samstarf sé milli þeirra sem koma að meðferð viðkomandi. Það getur verið yfirþyrmandi að greinast með langvinnan sjúkdóm eins og psoriasisgigt og góð fræðsla er nauðsynleg. Kvíði og þreyta geta verið mjög hamlandi þættir og þá er nauðsynlegt að byrja rólega og upplifa sig öruggan í þjálfun og vinna sig upp hægt og rólega. Það er eðlilegt að finna fyrir vægum óþægindum eftir æfingar, sérstaklega ef fólk er nýbyrjað í hreyfingu eða ef það hefur aukið ákefð eða þyngd í æfingum. Ef verkir aukast í lengri tíma eftir æfingu þarf að endurskoða æfing- aráætlun og skoða hvernig er hægt að aðlaga æfingar betur að líkamlegu ástandi.

Post a comment