Blog

Sóragigt og rannsóknir á Íslandi –
Viðtal við Björn Guðbjörnsson Prófessor í gigtarlækningum

Dr. Björn Guðbjörnsson prófessor í gigtarrannsóknum við Læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur við Rannsóknarstofu í Gigtarsjúkdómum, Landspítala svarar hér spurningum um rannsóknir á sóragigt á Íslandi

Rannsóknastofa í gigtarsjúkdómum (RG) við Landspítala (LSH) hóf starfsemi sína 1996 og er því 22 ára. Að stofnun rann- sóknarstofunnar stóðu; Læknadeild HÍ, LSH og Gigtarfélag Íslands með stuðningi Lionshreyfingarinnar. Rannsóknarstofan er hluti af starfsemi gigtlækningadeildar LSH sem skipuð er sérstakri stjórn með fulltrúum LSH, Læknadeildar HÍ og Gigtar- félags Íslands.

Auk fastra starfsmanna RG hefur fjöldi nemenda í heilbrigðis- vísindum; læknar og læknanemar, líffræðingar, lyfjafræðingar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraþjálfarar stundað rannsóknarnám á meistara- og doktorsstigi undir verndarvæng RG. Þá hefur RG verið í samstarfi við ýmis frumkvöðlafyrirtæki í lífvísindum, s.s. Naturimm og Expeda og náið samstarf er við ónæmisfræðideild LSH og Íslenska erfðagreiningu auk margra erlendra aðila.

Starfsemi RG er fjölbreytt, þar eru stundaðar grunnrannsóknir í bólguferlum, ónæmisfræði og erfðafræði, auk faraldsfræði- legra og klínískra rannsókna, svo sem lífsgæðarannsókna og á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á gagnagrunns- rannsóknir. Öll starfsemi RG er háð styrkveitingum þó að LSH og HÍ standi undir launakostnaði fastráðinna starfsmanna rann- sóknarstofunnar og undir grunnkostnaði vegna húsnæðis og þess háttar. Starfsemi RG hefur borið ríkulegan ávöxt en stofnun hennar skipti sköpum fyrir þróun gigtarrannsókna hér á landi. Allt frá stofnun RG hafa birst íslenskar rannsóknaniðurstöður á alþjóðavettvangi sem vakið hafa verðskuldaða athygli og leitt til samstarfs við viðurkennda alþjóðlega rannsóknahópa.

SEGÐU OKKUR FRÁ BAKGRUNNI ÞÍNUM BJÖRN OG HVAR ERTU MENNTAÐUR?

Ég útskrifaðist frá læknadeild HÍ 1981 og fór síðan til Svíþjóðar til náms í lyf- og gigtarlækningum. Fyrst við Huddinge sjúkrahúsið í Stokkhólmi en síðan við Akademíska sjúkrahúsið í Uppsala þar sem ég varði doktorsritgerð mína um heilkenni Sjögren ́s árið 1994.

Sjögrenssjúkdómurinn er sjálfsónæmissjúkdómur, óskyldur sóragigtinni, þó svo að einstaka sjúklingar með sóragigt geti fengið einkenni Sjögrens sjúkdómsins. Ég hóf síðan störf hér á RG árið 1998 í hlutastarfi.

HVER ERU AÐALVERKEFNI RG?

Aðalverkefni RG er að efla þekkingu á gigtarsjúkdómum á Íslandi og skapa umgjörð um rannsóknartengt nám því tengt. Forsenda öflugrar þjónustu við gigtarsjúklinga er góð þekking á algengi og hegðun þessara sjúkdóma hér á landi. Þekking á bólguferlum hinna ýmsu gigtarsjúkdóma tryggir góðar meðferðarákvarðanir nú á tímum líftæknilyfja.

ER RG AÐ RANNSAKA SÓRAGIGT?

Rannsóknir okkar á RG hafa beinst að liðbólgusjúkdómum svo sem iktsýki (oft nefnd liðagigt), hrygggikt og sóragigt en einnig að svokölluðum fjölkerfasjúkdómum eins og rauðum úlfum (SLE), heilkennum Sjögrens ásamt herlsimeini (systemic sclerosis) og öðrum gigtartengdum vandamálum eins og slitgigt, beinþynn- ingu og vefjagigt.

Fjöldi sóragigtarsjúklinga hafa lagt okkur lið við rannsóknir okkar á algengi, birtingarmynd og ættgengi sóragigtar á Íslandi. Auk þess hafa á fimmta hundrað sóragigtarsjúklingar sem hafa fengið meðferð með líftæknilyfjum tekið þátt í skráningu sjúk- dómseinkenna í ICEBIO-gagnagrunninn.

HVAÐ ER ICEBIO?

Flestir sjúklingar sem þarfnast líftæknilyfjameðferðar vegna gigtarsjúkdóma þekkja ICEBIO og taka virkan þátt í skráningu í hann. Þessu skráningarkerfi var lýst í Gigtinni, tímariti Gigtar- félags Íslands (2. tölublað 2009).

Markmið kerfisbundinnar skráningar í ICEBIO er að tryggja bæði gæði og öryggi flókinnar lyfjameðferðar. Upplýsingar sem eru skráðar í ICEBIO, bæði á göngudeild gigtar á LSH og á stofum sjálfstætt starfandi gigtarlækna eru hluti af sameiginlegri rafrænni sjúkraskrá viðkomandi sjúklings og mikilvægur öryggisþáttur. Ennfremur er unnt að nota gögn úr ICEBIO til rannsókna að fengnum viðeigandi leyfum frá Vísindasiðanefnd og Persónu- vernd.

EIGA RANNSÓKNIR Á SÓRAGIGT SÉR LANGA SÖGU HÉR Á ÍSLANDI?

Árið 1973 voru fyrstu ítarlegu vísindagreinarnar birtar um sóragigt. Fyrst um tengsl psoriasis og ýmissa liðbólgueinkenna en birtingarmynd sóragigtar getur verið fjölbreytt. Strax í upphafi lýstu rannsakendur sterkum ættartengslum sjúklinga. Í upphafi voru rannsóknir á sóragigt tiltölulegar fáar en á síðasta áratug hefur ritrýndum fræðigreinum um sóragigt fjölgað. Prófessor Helgi Valdimarsson hóf þessar rannsóknir hér á landi.

Dr. Jóhann Elí Guðjónsson varði doktorsritgerð sína um psoriasis árið 2003 við HÍ undir handleiðslu Helga Valdimarssonar. Heiti hennar var; Erfðir, klínísk einkenni og meingerð. Dr. Þorvarður Jón Löve varði síðan doktorsritgerð sína um sóragigt árið 2014, þar sem við lýstum í fyrsta sinn algengi sjúkdómsins hér á landi og hve sterkt hann liggur í fjölskyldum ásamt því hvernig ákveðnar naglbreytingar tengjast sóragigt. Síðan höfum við Þorvarður unnið sameiginlega að fleiri rannsóknum um sóragigt, bæði úr íslenskum efnivið en einnig með alþjóðlegum samstarfsverkefnum.

ER RG Í ALÞJÓÐLEGU SAMSTARFI ÞEGAR UM ER AÐ RÆÐA SÓRAGIGTARRANNSÓKNIR?

Já, við höfum verið í umfangsmiklu rannsóknastarfi með erlendum aðilum á síðustu árum. Þar er fyrst að nefna The Nordic PAM Study þar sem við rannsökum svokallaða „mutilans“ sjúklingum er skoðað. Þá höfum við unnið nokkrar rannsóknir með Dönum þar sem við erum með sambærileg gagnasöfn, DANBIO og ICEBIO, um sóragigtarsjúklinga sem þarfnast líftæknilyfjameðferðar. Þar höfum við skoðað áhrif mismunandi skammta af infliximab sem er líftæknilyf, svokallaður TNF hemill og enn fremur hvernig líkamsþyngd hefur áhrif á meðferðarár- angur meðal sóragigtarsjúklinga sem þarfnast lyfjameðferðar með líftæknilyfjum.

Nýlega hófum við víðtækt samstarf meðal Norðurlandanna á öllum stóru liðbólgusjúkdómunum, þar með talið sóragigt. Þar gefst okkur tækifæri á að bera saman meðferðaárangur og virkni sjúkdómanna ásamt ýmsum heilsufars- og samfélagsþáttum. Verkefnið er stutt stórum rannsóknarstyrk frá NordForsk og hefur verkefnið verið kallað Reuma-NordData. Hluti þessa verkefnis hefur stækkað þar sem 15 lönd í Evrópu hafa tekið sig saman um að skoða hrygggikt og sóragigt með samskonar hætti og hefur verkefnið fengið vinnuheitið Euro-SpA. Þessi verkefni eru mislangt á veg komin en flestir íslensku gigtarlæknanna koma að þessum verkefnum með einum eða öðrum hætti.

HVAÐA EINKENNUM ÞURFA SJÚKLINGAR AÐ VERA VAKANDI FYRIR OG HVER ERU HELSTU EINKENNI SÓRAGIGTAR?

Einkenni liðbólgu eru oftast liðverkir og stirðleiki, aðallega á morgnana, sem getur varað fram að hádegi. Þá geta útlimaliðir, einn eða fleiri, bólgnað. Margir fá einkenni um hrygggikt með bakverk og stirðleika sem hverfur við létta hreyfingu þegar líður á daginn. Ennfremur einkennist sóragigt af svokölluðum pulsufingrum eða puslutám sem einkennast af þrútnum og bólgnum fingrum eða tám (sjá mynd I). Margir sjúklingar eru með festumein, oftast um olnboga, hné og við hæl.

Því er birtingarmynd sóragigtar margbreytileg og því auðvelt að missa af þessari sjúkdómsgreiningu þar sem margir sjúklingar hafa ekki áberandi liðbólgur við læknisskoðun.

HVAÐ GREINIR PSORIASISGIGT FRÁ ÖÐRUM LIÐBÓLGUM OG ERU MEÐFERÐARÚRRÆÐI ÖÐRUVÍSI?

Aðaleinkenni sóragigtar er að flestir sjúklingar hafa þegar þekktan húðsjúkdóm. Þó er sjötti hluti þeirra sjúklinga sem greinast með sóragigt ekki með psoriasis við skoðun hjá gigtarlækni, það er þeir fá sóragigt áður en húðsjúkdómurinn gerir vart við sig.

Það getur flækt sjúkdómsgreininguna. Ekkert blóðpróf eða myndataka getur staðfest sóragigt, heldur er sjúkdómsgrein- ingin fyrst og fremst klínísk, þar sem saga sjúklings og nákvæm liðskoðun er mikilvægust við greininguna á sóragigt.

Meðferð við sóragigt er að hluta til sambærileg við aðra bólgusjúkdóma, þar sem sjúkra- og iðjuþjálfun er mikilvæg til að varðveita færni og starfsgetu en lyfjameðferð er að nokkru leyti sú sama. Á síðustu árum hafa komið fram ný lyf sem eru sértækari fyrir sóragigt en aðra liðbólgusjúkdóma, þannig að velja þarf lyfjameðferð vandlega með tilliti til alvarleika gigtarinnar og hvaða fylgisjúkdómar geta verið á ferðinni sem hafa áhrif á lyfjavalið.

Stóra byltingin í meðferð kom upp úr aldamótum með tilkomu svokallaðra líftæknilyfja. Í fyrstu var um að ræða lyf sem hindruðu

bólguferilinn mjög sértækt með því að hindra virkni TNF boðefnisins. Á síðari árum hafa komið fram fleiri sértæk líftæknilyf sem hafa áhrif á aðra bólguþætti eins og IL17 og IL23. Handan við hornið er frekari lyfjaþróun með smásameindum sem munu gefa fleiri möguleika til meðferðar og aðlaga meðferðina að hverjum sjúklingi, þ.e. svokölluð „personalized medicine“.

ER MIKILVÆGT AÐ FARA TIL GIGTARLÆKNIS EF MAÐUR HEFUR LIÐBÓLGUR? GETA EINKENNI VERSNAÐ EF MAÐUR LEITAR SÉR EKKI HJÁLPAR SNEMMA EÐA ER HÆGT AÐ HINDRA AÐ EINKENNI VERSNI?

Það er mikilvægt að greina alla liðbólgusjúkdóma snemma, þar með talið sóragigt. Bólgan er oftast minni í byrjun og liðskemmdir ekki byrjaðar eins og gerist ef liðbólgan er látin óáreitt. Þannig er hægt að varðveita færni hvers og eins.

Hafi einstaklingur með psoriasis grun um að hafa sóragigt er einfaldast að leita til heimilislæknis og fá það staðfest að um sóragigt geti verið að ræða og fá tilvísun til gigtarlæknis til frekari sjúkdómsgreiningar og mats á sjúkdómsvirkni, sem er grundvöllur að vali á meðferð.

Virk meðferð getur dempað sjúkdómsvirkni sóragigtar og húðsjúkdóms með þeim áhrifum að sóragigtin fari í sjúkdóms

hvíld til lengri tíma. Þá verður sjúklingurinn nær einkennalaus frá gigtinni.

ERU EINHVER MEÐFERÐARÚRRÆÐI SEM VIRKA SAMEIGINLEGA Á HÚÐ OG LIÐI. TIL DÆMIS LÍFTÆKNILYF, VERÐUR AÐ VELJA HVORT VINNA EIGI MEÐ HÚÐEINKENNI EÐA LIÐBÓLGUR?

Val meðferðar er mjög áþekkt hvort sem það er psoriasis eða sóragigt sem verið er að meðhöndla. Ónæmisdempandi meðferð er fyrst og fremst methótrexat sem gagnast oft vel gegn bæði húð- og liðeinkennum en þegar það dugar ekki er oft gripið til líftæknilyfja. Þar er fyrsta valið oft svokallaðir TNF-hemlar.

Önnur líftæknilyf eru með aðra verkun og þarf að velja þau eftir sjúkdómsstigi, bæði alvarleika og birtingarmynd og með tilliti til ýmissa fylgisjúkdóma sem eru algengir meðal sóragigtarsjúklinga (sjá yfirlitsmynd af klínískum leiðbeiningum III: Sjá nánar https://www.landspitali.is/fagfolk/kliniskar-leidbeiningar/ leit-i-kliniskum-leidbeiningum/).

VARÐANDI MEÐFERÐ PSORIASIS SJÚKLINGA Á ÍSLANDI, ÞEKKIST ÞAÐ AÐ HÚÐ OG GIGTARLÆKNAR VINNI SAMAN LÍKT OG GERIST VÍÐA ERLENDIS?

Víða erlendis eru til meðferðaeiningar þar sem læknateymi gigtar- og húðlækna vinna saman við meðferð psoriasissjúklinga. Hér á landi eru ekki sérstakar móttökur fyrir þennan sjúklingahóp en gott samstarf er á LSH milli gigtar- og húðdeildarinnar sem báðar eru staðsettar í Fossvogi. Læknar á deildunum hittast reglulega og ræða erfið tilfelli í þeim tilgangi að hjálpa sjúklingunum og bæta líðan þeirra og lífsgæði.

 

 

Post a comment