Blog

Psoriasis og exem í hársverði -hvað get ég gert?

Samantekt og ráðleggingar Önju Ísabellu

Eitt birtingarform psoriasis og exems er í hársverði og þykir mörgum það erfitt viðfangs, einkum þeim sem eru með sítt hár. 
Blettirnir þar byrja eins og annars staðar á líkamanum fyrst eins og rauðar skellur sem mynda síðar silfrað hreistur sem síðar dettur af.


Psoriasis og exem í hársverði er mjög algengt og margir fá raunar bara bletti þar og hvergi annars staðar. Þessu fylgir oft mikill kláði og hitatilfinning. Mikilvægt er að meðhöndla hársvörðinn til að slá á einkenni og óþægindi sem þessu kann að fylgja.


Það er mismunandi hvaða ráð virka fyrir hvern og einn en það ætti alltaf að vera markmið að minnka bólgur í líkamanum því sjúkdómarnir eru bólgusjúkdómar og því þarf að meðhöndla líkamann að innan og utan. 
Slík meðhöndlun er þá allt frá því að borða bólguminnkandi fæði og forðast mat sem er bólguaukandi. Einnig vinnur hreyfing og góður nætursvefn á móti bólgum.


En fyrir utan þetta og að sjálfsögðu eiginlegar meðferðir ávísaðar af húðlæknum eins og sterameðferð og ljósameðferð, eru ýmsar vörur sem hafa reynst mér og öðrum vel og mig langar að benda á að inni á lokuðum Facebook hóp sem heitir „Umræðuhópur um psoriasis og exem -ætlaður fólki á öllum aldri” geta allir mælt með vörum, efst á síðunni. Það er gert með lýðræðislegum hætti þannig að fólk getur lagt sitt atkvæði á þær sem hafa virkað fyrir sig.

Í meginatriðum er aðalatriðið er að tryggja góðan raka, bæði í hársverði og hári.
Það er gert með því að nota gott sjampó, góða næringu, stundum djúpnæringu -einkum yfir köldustu og heitustu mánuðina, hárvökva/smyrsli fyrir hársvörð og hárolíu til að viðhalda raka í hárinu.

Ég mæli með að eiga fleiri en eina góða tegund af sjampói og nota þær til skiptis svo að líkaminn nái ekki að byggja upp “varnir” gegn einni tegund, þ.e minnka líkurnar á því að það hætti að virka á blettina. Mig langar að benda á að ein meðferð gegn psoriasis er svokölluð tjörumeðferð og það er hægt að fá svokallað tjörusjampó. Mörgum finnst lyktin af því vond, en mér finnst hún góð -pínu sérstök og það besta er að það virkar vel!
Ég nota alltaf hárnæringu eða djúpnæringu yfir köldustu mánuðina en ég set djúpnæringu ca. 2-3 í mánuði, þegar mér finnst þurrkurinn bæði í hársverði og hári orðinn mjög mikill.

Hárolían er sett í þurrt hárið, bara 2-3 dropar í endana til að viðhalda þeim góða raka sem næringin gefur og vernda hárið enn betur.
Smyrsli: Á göngudeild Spoex höfum við mælt með ACP smyrsli frá Gamla aptótekinu, það er notað til að afhreistra húð og reynist einkar vel til notkunar í hársvörð samhliða ljósameðferð.
Þá er mælt með því að bera smyrslið í hársvörðinn að kvöldi og skola úr að morgni. Ég mæli með því að leggja viskustykki eða handklæði yfir koddann til að hlífa rúmfötunum.