Uncategorized

Hvað er Spoex og hvað gerir það?

Spoex stendur fyrir Samtök psoriasis- og exemsjúklinga. Samtökin eru staðsett í Bolholti 6, 105 Reykjavík en starfa fyrir sjúklinga allsstaðar á Íslandi.

Hlutverk Spoex er í raun tvíþætt því Spoex er félag sem starfar í þágu félagsmanna sinna og hins vegar rekur félagið göngudeild, staðsetta í Bolholti þar sem skrifstofan er einnig staðsett.

Það er 7 manna stjórn sem er ábyrg fyrir starfi Spoex en í hennar umboði starfar skrifstofustjóri sem sér um allan daglegan rekstur.

Á skrifstofunni fer fram mikið og þarft starf; halda þarf utan um málefni er varða félagsmenn og sinna bókhaldi og erlendu samstarfi, enda er Spoex aðili að alþjóðlegu psoriasis samtökunum IFPA og Nordpso sem eru samtök norrænna psoriasisfélaga. Einnig fara samskipti við aðra aðila í gegnum skrifstofuna. Þar má nefna fréttaveitur, ráðuneyti og önnur félagasamtök eins og ÖBÍ sem SPOEX er aðili að.

Fræðslufundir og fyrirlestrar eru haldnir á vegum félagsins og þar ber helst að nefna metnaðarfulla dagskrá á alþjóðadegi psoriasis sem er haldinn 29. október ár hvert. Félagið gefur út tímarit einu sinni á ári og stutt fréttabréf fyrir fólk skráð á póstlista.

Á göngudeild Spoex er hlýlegt andrúmsloft og vel tekið á móti gestum. Þar er veitt ljósameðferð, fræðsla og stuðningur við sjúklinga. Þar er tekið við skjólstæðingum sem hafa fengið tilvísun frá húðlækni um ljósameðferð en kjósi skjólstæðingar að koma í Bolholt í meðferð þarf að biðja húðlækni sérstaklega um það.

Læknir göngudeildarinnar er Birkir Sveinsson. Birkir kemur reglulega á deildina og sinnir sjúklingum.
Tímapantanir fara í gegnum móttöku göngudeildar í síma 588-9620 eða með tölvupósti á gongudeild [hja] spoex.is

Read more

Psoriasis og exem í hársverði -hvað get ég gert?

Samantekt og ráðleggingar Önju Ísabellu

Eitt birtingarform psoriasis og exems er í hársverði og þykir mörgum það erfitt viðfangs, einkum þeim sem eru með sítt hár. 
Blettirnir þar byrja eins og annars staðar á líkamanum fyrst eins og rauðar skellur sem mynda síðar silfrað hreistur sem síðar dettur af.


Psoriasis og exem í hársverði er mjög algengt og margir fá raunar bara bletti þar og hvergi annars staðar. Þessu fylgir oft mikill kláði og hitatilfinning. Mikilvægt er að meðhöndla hársvörðinn til að slá á einkenni og óþægindi sem þessu kann að fylgja.


Það er mismunandi hvaða ráð virka fyrir hvern og einn en það ætti alltaf að vera markmið að minnka bólgur í líkamanum því sjúkdómarnir eru bólgusjúkdómar og því þarf að meðhöndla líkamann að innan og utan. 
Slík meðhöndlun er þá allt frá því að borða bólguminnkandi fæði og forðast mat sem er bólguaukandi. Einnig vinnur hreyfing og góður nætursvefn á móti bólgum.


En fyrir utan þetta og að sjálfsögðu eiginlegar meðferðir ávísaðar af húðlæknum eins og sterameðferð og ljósameðferð, eru ýmsar vörur sem hafa reynst mér og öðrum vel og mig langar að benda á að inni á lokuðum Facebook hóp sem heitir „Umræðuhópur um psoriasis og exem -ætlaður fólki á öllum aldri” geta allir mælt með vörum, efst á síðunni. Það er gert með lýðræðislegum hætti þannig að fólk getur lagt sitt atkvæði á þær sem hafa virkað fyrir sig.

Í meginatriðum er aðalatriðið er að tryggja góðan raka, bæði í hársverði og hári.
Það er gert með því að nota gott sjampó, góða næringu, stundum djúpnæringu -einkum yfir köldustu og heitustu mánuðina, hárvökva/smyrsli fyrir hársvörð og hárolíu til að viðhalda raka í hárinu.

Ég mæli með að eiga fleiri en eina góða tegund af sjampói og nota þær til skiptis svo að líkaminn nái ekki að byggja upp “varnir” gegn einni tegund, þ.e minnka líkurnar á því að það hætti að virka á blettina. Mig langar að benda á að ein meðferð gegn psoriasis er svokölluð tjörumeðferð og það er hægt að fá svokallað tjörusjampó. Mörgum finnst lyktin af því vond, en mér finnst hún góð -pínu sérstök og það besta er að það virkar vel!
Ég nota alltaf hárnæringu eða djúpnæringu yfir köldustu mánuðina en ég set djúpnæringu ca. 2-3 í mánuði, þegar mér finnst þurrkurinn bæði í hársverði og hári orðinn mjög mikill.

Hárolían er sett í þurrt hárið, bara 2-3 dropar í endana til að viðhalda þeim góða raka sem næringin gefur og vernda hárið enn betur.
Smyrsli: Á göngudeild Spoex höfum við mælt með ACP smyrsli frá Gamla aptótekinu, það er notað til að afhreistra húð og reynist einkar vel til notkunar í hársvörð samhliða ljósameðferð.
Þá er mælt með því að bera smyrslið í hársvörðinn að kvöldi og skola úr að morgni. Ég mæli með því að leggja viskustykki eða handklæði yfir koddann til að hlífa rúmfötunum.
Read more

Saga psoriasis -eftir Birki Sveinsson húðlækni

Psoriasis er líklega meðal þeirra sjúkdóma sem lengst hefur verið vitað um í mannkynssögunni. Læknisfræði þróaðist í Mesópótamíu og elstu heimildir eru á steintöflum (e. clay tablets) 1000-3000 árum fyrir Kristsburð. Húðsjúkdómar voru vel þekktir og kallaðir asu og voru lækningar á þeim stundaðar af prestum og spámönnum. Ekkert er þó að finna með vissu um psoriasis í þessum heimildum.

Í Egyptalandi til forna voru samkvæmt Herodetusi læknar fyrir hvert líffæri að heilanum undanskildum þar sem talið var að hann hefði ekkert hlutverk. Í heimildum frá þessum tíma 1500 árum fyrir Krist (Ebers papyrus) er ótal húðsjúkdómum lýst og hugtakið húðflögnun kemur oft fyrir en ekki er hægt að greina þar einstaka sjúkdóma. Grikkir til forna notuðu orðið lepra um flagnandi húðkvilla. Þeir notuðu psora til að lýsa húðkvillum með kláða.

 

Heimildir um læknisfræði eru af skornum skammti í ritum gyðinga til forna helst er að þær sé að finna í Gamla Testamentinu. Í Leviticus er að finna stutta lýsingu á húðsjúkdómi sem kallast zaraath og sumir fræðimenn telja að geti verið psoriasis þó holdsveiki (e. leprosy), vitiligo eða sveppasýkingar komi einnig til greina. Margar tilvitnanir í Biblíunni um leprosy eru líklega um psoriasis. Í Konungsbók er holdsveiki lýsing Naaman á húðkvilla þar sem húðin er hvít sem snjór. Líklega er þarna verið að lýsa silfurlituðu hreistri psoriasis skellna.

Í indversku trúarriti Charaka Samita (100 f.Kr. til 100 e.Kr.) sem er hluti af Ayurvedic fræði er lýsing á sjúkdómi sem gæti verið psoriasis.

Ímyndið ykkur að húðsjúkdómur skuli talinn svo skelfilegur að þeir sem eru haldnir honum þurfi að bera bjöllu um hálsinn svo allir geti vitað um ferðir þeirra.

Þeir sem voru haldnir psoriasis þurftu einnig að matast á aðskildum borðum frá öðrum og klæðast sérstökum fötum til að hylja þykkar húðskellurnar. Bölvun var einnig talin fylgja þessu fólki og í verstu tilfellum voru psoriasis sjúklingar útilokaðir frá samfélaginu og jafnvel brenndir á báli. Þetta var á hinum myrku miðöldum.

Saga húðsjúkdómsins sem við í dag þekkjum sem psoriasis er samofin sögu annarra sjúkdóma svo sem holdsveiki en sjúkdómarnir bera mörg sameiginleg einkenni. Það var þó ekki fyrr en á 19. öld sem psoriasis var aðgreindur frá holdsveiki.

Hippókrates, faðir vestrænnar læknisfræði lýsti hópi sjúkdóma sem einkennast af hreistrandi húðbreytingum sem hann kallaði lopoi sem er grískt heiti á yfirhúðinni (e. epidermis) líklega eru bæði psoriasis og holdsveiki í þessum hóp.

Flestir eru sammála um að það hafi verið Aurelius Celsus (25 F.K. – 45 E.K.) sem fyrstur lýsti psoriasis í riti sínu „De re medica“. Þar talar hann um húðsjúkdóm með mismunandi löguðum blettum og hreistri sem fellur af húðinni.

Heitið psoriasis er komið úr grísku en psora þýðir kláði og var fyrst notað af Galen frá Pergamon (133-200 F.K.). Galen var læknir í Rómaveldi og skrifaði mörg rit meðal annars um líffærafræði,  lífeðlisfræði, og lyfjafræði.

Lengi vel voru húðsjúkdómar meðhöndlaðir af skurðlæknum. Daniel Turner (1667-1741) var skurðlæknir sem lagði stund á rannsóknir á húðsjúkdómum. Hann gaf út bók 1712 „De morbis cutaneis. A treatise of diseases incident to the skin”. Í henni er frekar óskýr lýsing á psoriasis sem hann kallar „Leprosy of the Greek” til aðskilnaðar frá holdsveiki sem hann kallar „Leprosy of the Arabian”. Hann gerði sér einna fyrstur grein fyrir að krem eða önnur staðbundin meðferð við húðsjúkdómum geti haft áhrif á innri líffæri.

Charles Anne Lorry (1726-1783) sem síðar varð læknir Loðvíks 16. og talinn fyrsti franski húðsjúkdómalæknirinn, gaf 1777 út bókina „De morbis cvtaneis”. Þessi bók var yfir 700 síður, þar er í fyrsta sinn gerð tilraun til að flokka húðsjúkdóma eftir orsökum og tengslum þeirra við innri líffæri og taugakerfið.

Robert Willan (1757-1812) var sá sem skilgreindi psoriasis sem sérstakan sjúkdóm en hann notaði hins vegar nafnið lepra (Willan’s lepra). Lýsingar hans eru á psoriasis en ekki holdsveiki. Hann lýsti mismunandi formum af psoriasis þ.e. guttae, diffuse, palmaria, unguium, og inveterata. Hann gerði sér grein fyrir að psoriasis byrjar oft á olnbogum og hnjám og dreifir sér í hársvörð og í neglur á tám og fingrum.

Ferdinand Hebra (1816-1880) var austurískur húðsjúkdómalæknir sem 1841 greindi endanlega psoriasis frá holdsveiki og gerði endurbætur á flokkunarkerfi Willans. Hebra festi nafnið psoriasis í sessi.

Árið 1818 gerði Jean Louis Alibert (1768-1837) sér grein fyrir tengslum liðskemmda og psoriasis sem Pierre Bazin (1807-1878) nefndi arthritis psoriatica 1860. Lýsingar á afbrigðum af psoriasis fylgdu í kjölfarið pustuler generalisata (Zumbusch 1910) og síðar palmo-plantar (Barber-Königsbeck). Sumir höfundar lýstu síðar einkennum psoriasis sem hjálpuðu við greiningu.

Meðal þessara höfunda var Heinrich Köbner (1838-1904) prófessor í húðlækningum frá Breslau í Póllandi en við hann er Köbners phenomena (psoriasis í ör eða sár) kennt. Hann lýsti fyrstur þessu sérstaka fyrirbæri þar sem psoriasis útbrot koma á húð þar sem hún hefur orðið fyrir áverka. Síðar hefur þetta einkenni verið notað til að rannsaka psoriasis á frumstigi.

Heinrich Auspitz (1835-1886) nemandi Hebra lýsti punktblæðingum þegar hreistrið er tekið af psoriasis blettum. Þetta fyrirbæri er kallað Auspitz sign þó svo D. Turner, R. Willan og F. Hebra hafi allir veitt þessu athygli áður. Auspitz rannsakaði psoriasis í smásjánni og sum heiti sem notuð eru enn í dag svo sem parakeratosis (sem lýsir frumukjörnun í hornlaginu sem ekki eiga að vera þar) og acantosis (þykknun yfirhúðarinnar) eru frá honum komin. Í lok 19. aldar er smásjármynd (vefjameinafræði) psoriasis lýst í smáatriðum, að því verki komu auk A. Hebra, Unna og William Munro. Munro lýsti 1898 litlum graftarkýlum (e. microabcessum) í yfirhúðinni með hvítum blóðkornum (e. neutrophil). Þessi kýli eru einu breytingarnar í psoriasis smásjármyndinni sem eru sérkennandi fyrir psoriasis.

Það var svo á seinni hluta 20. aldar sem sýnt var fram á að yfirhúðin í psoriasis inniheldur 25 falt meiri frumuskiptingar en eðlileg húð. Rannsóknir Weinstein 1968 sýndu að endurnýjunartími yfirhúðarfrumna í psoriasis er styttur úr 27 dögum eðlilegrar húðar í 4 daga psoriasis húðar.

Á 20. öld gera menn sér svo grein fyrir því að psoriasis er erfðasjúkdómur og að umhverfisþættir svo sem sýkingar og streita geti haft áhrif á sjúkdóminn og stundum jafnvel komið honum af stað.

Undanfarna áratugi hafa rannsóknir á tengslum psoriasis og ónæmiskerfisins verið áberandi. Þar hefur komið fram að ræsing ákveðinna ónæmisfrumna svokallaðar T-frumur geti verið undanfari sjúkdómsins.

Þó mikill fjöldi meðferða sé til staðar er erfitt að meðhöndla psoriasis vegna langvinns eðlis sjúkdómsins. Engin lækning við psoriasis er til staðar í dag en fjöldi meðferða hafa verið þróaðar sem halda einkennum sjúkdómsins í skefjum. Stöðug þróun er í lyfjum og öðrum meðferðaformum við psoriasis. Mikill árangur hefur náðst síðan um síðustu aldamót með tilkomu líftæknilyfja (e. biologics).

Greinin birtist fyrst í tímariti Spoex árið 2016.
Birkir Sveinsson er húðlæknir göngudeildar Spoex og hefur þar reglulega viðkomu ásamt því að starfa á Húðlæknastöðinni í Smáranum. Hægt er að panta tíma hjá Birki með því að hringja í 588-9620 á opnunartíma göngudeildarinnar.

Heimildir

 • Menter, Alan; Stoff, Benjamin (2011). Psoriasis. Manson Publishing.
 • Löser, Christoph; Plewig, Gerd; Burgdorf, Walter (2013). Springer Vorlag. Pantheon of Dermatology: Outstanding Historical Figures.
Read more

Afsláttarkjör -afhverju að borga meira ef þú þarft þess ekki?

Félagsskírteini Spoex

Félagsmenn Spoex fá félagsskírteini sem veita afslátt af ýmiskonar vörum og þjónustu.

Við notkun afsláttar ber félagsmönnum að sýna félagsskírteini Spoex. Félagsmenn sem hafa glatað skírteini sínu geta pantað nýtt skírteini með því að senda póst á netfangið skrifstofa@spoex.is.

Ertu ekki félagsmaður og vilt ganga í félagið? Ýttu þá

<<hér>>

Afsláttur félagsmanna Spoex 2019

Líkamsrækt  

Bjarg, líkamsræktarstöð, Bugðusíðu 1 603 Akureyri, www.bjarg.is
25% af öllum kortum, afsláttur gildir ekki af námskeiðum

Crossfit Austur, Lyngási 12, 700 Egilsstaðir,  www.crossfitaustur.com
Fyrsti mánuður frír í áskrift. Fjölbreyttir tímar sem henta öllum.
Frír íþróttaskóli fyrir börn meðlima 1x í viku og barnapössun möguleg.
20% afsláttur í netverslun Austurstore af fatnaði, aukahlutum, stuðningsvörum og húðvörum. Afslátttur gildir aðeins í netverslun www.austurstore.is með kóðanum “spoex19”.

Crossfit Selfoss, Eyravegur 33, 800 Selfoss, www.crossfitselfoss.is
15% af öllum staðgreiddum kortum

Gáski Bolholt 8 | 105 Reykjavík, Þönglabakka 1, Mjódd | 109 Reykjavík www.gaski.is
12 vikna kort 13.600 (20% afsláttur) / Árskort á 29.000

Heilsuborg Bíldshöfði 9, 110 Reykjavík, www.heilsuborg.is
13% afsláttur af líkamsrækt

Hress, líkamsræktarstöð Dalshrauni 11, 220 Hafnarfirði,  www.hress.is
Árskort á 65.990kr

Hressó, líkamsræktarstöð, Strandarvegi 65 900 Vestmannaeyjum
10% af allri líkamsrækt

Íþróttamiðstöðin Egilsstöðum,
 Tjarnarbraut, 700 Egilsstaðir
20% afsláttur af kortum í þrek og sund

Íþróttamiðstöðin og sundlaugin á Vík, Mánabraut 3, 870
Félagsmenn fá bæði frítt í sund og í tækjasalinn

Stúdíó Dan, Hafnarstræti 20,  400 Ísafirði
www.facebook.com/studiodan1/
20% afsláttur af kortum, gildir ekki fyrir samninga eða tímakort.

Meðferðir og meðferðarvörur

101 Spa, Reykjavík, Laugavegur 71, 101 Reykjavík, www.101spa.is
30% afsláttur af meðferðum mán-mið og 10% afsláttur fim-lau

Bláa lónið, allar verslanir, Laugavegi 15, Leifsstöð og í Bláa lóninu Svartsengi
40% afsláttur af öllum meðferðarvörum:
SILICA SOFTENING BATH AND BODY OIL, MINERAL MOISTERIZING CREAM, MINERAL INTENSIVE CREAM, SILICA PURIFYING SHAMPOO, SCALP TREATMENT, MINERAL BATH SALT, HOME TREATMENT, SOFT TREATMENT.
Allar vörur

Geo Silica, www.geosilica.is
2 FYRIR 1 af öllum vörum í vefverslun. Skrifið SPOEX í athugasemd þegar flaska er keypt og önnur fylgir í kaupbæti.

Lyfja, apótek um land allt
12% afsláttur af nokkrum vöruflokkum. Húðvörum, gerviskinni og hönskum.
Vegna laga um persónuvernd þarf að veita Spoex formlegt leyfi til að senda Lyfju kt. Viðkomandi til að virkja afsláttinn. Nýir meðlimir geta skráð samþykki við skráningu í félag Spoex.

Sálfræðimeðferð, Anna Dóra Steinþórsdóttir bókun í síma 866-4046.
Lífsteinn, Álftamýri 1, 105 Reykjavík.
Félagsmönnum Spoex býðst tíminn á 13.000 í stað 15.000. Þeir þurfa að taka fram við bókun að þeir séu meðlimir Spoex.

Þínir fætur fótaaðgerðarstofa Hafnarstræti 97, 600 Akureyri
500kr. afsláttur af almennu verði

Að auki veitir Olís afslátt á bensínstöðvum sínum.


Í hvert skipti sem viðskiptavinur framvísir félagsskírteini við kaup á bensíni hjá Olís styrkir hann Spoex, Samtök psoriasis- og exemsjúklinga og sparar pening sjálfur!
Olís framleiðir félagsskírteinin fyrir Spoex og eru kortin því bæði merkt félaginu efst í hægra horni og Olís.

OLÍS bensínstöðvar um land allt

10% afsláttur af vörum (öðru en tóbaki, lottói o.fl)
4 kr. afsláttur af bensíni við sjálsafgreiðslu
6 kr. afsláttur af bensíni í þjónustu

 

 

Read more

Global psoriasis Atlas

Global psoriasis Atlas er gagnagrunnur sem byggir á vísindalegum athugunum og faraldsfræðilegum rannsóknum sem tengjast psoriasis og fylgisjúkdómum hans. Hann byggir á sjúkráskráningum víðsvegar um heim.

GPA er samvinnuverkefni á milli alþjóðlegra samtaka innan húðgeirans á heimsvísu og var stofnað í framhaldi af útgáfu skýrslu Alþjóða Heilbrigsstofnunar árið 2014 þar sem psoriasis var viðurkenndur sem alvarlegur og ósmitnæmur sjúkdómur. 
GPA er fjármagnað með styrkjum frá stofnunum og fyrirtækjum innan húðgeirans.
Markmið GPA
Markmið GPA er að skrásetja og miðla þeirri þekkingu sem fyrirfinnst um psoriasis og vera miðlægur þekkingargrunnur þeirra skráninga og rannsókna sem til eru um sjúkdóminn.  Ennfremur að greina útbreiðslu sjúkdómsins með samantekt úr sjúkraskráningakerfum víðs vegar um heiminn.
Verkefni sem miða að því að rannsaka þætti þar sem vöntun er á rannsóknum og þekkingu tengd psoriasis styrkt með fjárhagsstuðningi. Með stuðningi við alþjóðlegt samstarf samnýtist þekking og gildi hennar eykst.
Global psoriasis Atlas eða GPA er langtíma verkefni þar sem stöðugt er leitast við að finna leiðir til að bæta líðan psoriasissjúklinga og auka skilning á sjúkdómnum. Markmiðið er að skoða hvaða áhrif hann hefur bæði á líf einstaklinga og samfélgið í heild sinni.

meeting

Verkefnið er samvinna á milli alþjóðlegra samtaka í húðgeiranum á heimsvísu. Samvinnan samanstendur af eftirfarandi:
 • International Federation of Psoriasis Associations (IFPA)
 • International League of Dermatological Societies (ILDS)
 • International Psoriasis Council (IPC)
 
Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa möguleikann á því að auka skilning okkar á psoriasis sjúkdómnum og fylgisjúkdómnum sem honum geta fylgt ásamt andlegum og félagslegum afleiðingum hans.

Það hefur vantað samræmda aðferðafræði í fyrri faraldfræðilegar rannsóknir sem hafa verið gerðar með þeim afleiðingum að samanburður, t.a.m. landfræðilegur samanburður hefur takmarkað gildi.

 

 

 

Read more

Alþjóðadagur psoriasis 2019

Spoex, Samtök Psoriasis- og Exemsjúklinga boða til fyrirlestra og vörukynninga á Grand Hótel Reykjavík, Sigtúni 38, 105 Reykjavík þriðjudaginn 29. október 2019.

Húsið opnar klukkan 17:00 og fyrirlestrar hefjast 17:30.

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Kaffi og léttar veitingar.

Dagskrá:

 • Ingvar Ágúst Ingvarsson formaður SPOEX og varaforseti IFPA
  Fyrirlestur um Alþjóðasamtök psoriasis sjúklinga og kynning á Global Psoriasis Atlas verkefninu.

 • Laufey Steindórsdóttir, hjúkrunarfræðingur og Ingvar Hákon Ólafsson, tauga-og heilaskurðlæknir
  Áhrif hugleiðslu og hreyfingar á heilastarfsemina og heilsuna.

 • Sebastiano Forgia og Ingeborg Beunders
  -Þau koma frá Boehringer Ingelheim og mun Ingeborg kynna hvernig þau vinna með sjúklingasamtökum og heita kynning hennar “Hlustað á rödd sjúklinga – Alþjóðadagur psoriasis 2019 (e. Listening to the patient’s voice – World Psoriasis Day 2019) og fyrirlestur Sebastiano heitir “Boehringer Ingelheim: committed to dermatology patients”. Þeirra kynningar verða fluttar á ensku

 

Read more

Hvað get ég sjálf/ur gert til að hafa áhrif á sjúkdóminn minn

 • Haltu þér í góðu formi líkamlega
 • Haltu þér í góðu formi andlega
 • Fáðu nægan góðan svefn
 • Stundaðu reglulega hreyfingu
 • Borðaðu holt og fjölbreytt fæði
 • Berðu reglulega á þig rakakrem
 • Hugsaðu vel um húðina
 • Sinntu þeirri meðferð sem þú ert í
 • Fara reglulega til læknis
 • Forðastu streituvalda
 • Forðastu að reykja
 • Passaðu að sólbrenna ekki
 • Neyttu áfengis í hófi
Read more

Exem

-einkenni og meðferðarúrræði

Exem er húðsjúkdómur í ystum lögum húðarinnar.

Heilbrigð húð viðheldur raka og ver húð fyrir bakteríum en húð exemsjúklinga er þurrari en vanalega, hún er „gljúpari“ sem veldur því að rakatap verður meira og að sama skapi eiga utanaðkomandi efni greiðari leið inn í húðina.

Algengustu einkennin eru:

 • þurr húð
 • mikill kláði -sérstaklega að næturlagi
 • rauðir eða brúngráir flekkir sem geta birts m.a. á höndum, fótum, ökklum, augnlokum, bringu, hálsi, hnéspótum og olnbogabótum.
 • vökvafylltar blöðrur og sprungur í húð.

Hvað er til ráða?

Meðferðir við exemi miða að því að draga úr einkennum og vanlíðan.

Það eru ýmsir ættir sem hægt er að tileinka sér sem draga úr þurrki eins og að fara í snöggar sturtur, nota mildar sápur og þurrka sér varlega.

Einnig er mikilvægt að bera rakakrem á húð amk 2x á dag, að forðast þætti/aðstæður sem hafa slæm áhrif á húðina eins og streitu, svita og sápur. Klórböð og kalíumböð geta gert einstaklingum með exem gott.

Meðferðir sem læknar ávísa eru t.d:

 • sýklameðferðir í töflu eða kremformi
 • sterakrem
 • ljósameðferðir
 • blautvafningar sem framkvæmdir eru á sjúkrahúsi.
 • Að auki ávísa læknar sálrænum meðferðum.
Read more

„Fylgisjúkdómar“ -aðrir sjúkdómar sem þarf að vera vakandi fyrir…

Fólk með psoriasis í húð og liðum er í aukinni hættu á að þróa með sér langvinna fylgisjúkdóma. Orðið fylgisjúkdómur þýðir í raun sjúkdómur sem kemur í kjölfar annars sjúkdóms. Áætlað er til að mynda að 30% þeirra sem fá psoriasis í húð fái psoriasis liðagigt. Ennfremur er fólk með sjúkdóminn í aukinni hættu að þróa með sér hjarta og æðasjúkdóma, fá svæðisgarnabólgu, þjást af offitu, fá sumar tegundir af krabbameini og kljást við andleg veikindi.

Beinþynning

Beinþynning einkennist af því að beinþéttni eða beinmagn minnkar. Sumir sjúkdómar hafa áhrif á kalkbúskapinn og geta valdið beinþynningu. Þeirra á meðal eru liðagigt og langvinnir meltingar- eða lifrarsjúkdómar. Lyf geta einnig haft áhrif á beinþéttni og sykursterar eins og prednisolon sem notað er við asthma og bólgusjúkdómum er eitt þeirra lyfa sem er talið geta valdið beinþynningu. Rannsókn frá árinu 2014 staðfesti mikil tengsl á milli sjúkdómanna psoriasis og beinþynningar. Hátt hlutfall þeirra sem voru með psoriasis reyndust vera með beinþynningu.


Crohns sjúkdómur

Þeir sem eru með psoriasis eru í aukinni hættu á að fá bólgusjúkdóma í þörmum. Þar á meðal er svokallaður crohns sjúkdómur sem hefur verið nefndur á íslensku svæðisgarnabólga. Chrohns er langvinnur ólæknandi bólgusjúdómur sem herjar yfirleitt á ristilinn eða neðri hluta smáþarma. Sjúklingurinn fær slæm tímabil sem einkennast af hita, kviðverkjum, niðurgangi og sjúkdómurinn getur haft þau áhrif að sjúklingurinn megrast. Þess á milli hefur sjúklingurinn lítil eða engin einkenni af sjúkdómnum. Svæðisgarnabólga veldur bólgubreytingum þar sem hann er í þörmum og veldur sárum sem geta stundum leitt til mikilla blæðinga. Þegar þau gróa myndast ör sem geta leitt til þrenginga í þörmum.


Hjarta -og æðasjúkdómar


Fólk með psoriasis er í aukinni hættu á að fá hjarta -og æðasjúkdóma. Samkvæmt einni rannsókn eru þeir sem eru með alvarleg einkenni af psoriasis 58% líklegri til að fá hjartasjúkdóma en 43% líklegri til að fá heilablóðfall.


Krabbamein

Nokkrar rannsóknir hafa leitt í ljós  að því að fólk með psoriasis og psoriasis gigt er í aukinni hættu á fá ákveðnar tegundir krabbameins, svo sem eitlaæxli og húðkrabbamein. Niðurstöður yfirgripsmikillar rannsóknar sem gerð var í Taiwan um áhættuþátt þess að psoriasissjúklingar fái krabbamein leiddi í ljós á þrátt fyrir að psoriasis sjúklingar séu í meiri hættu á að fá krabbamein er talið að UVB ljósameðferð auki ekki hættuna, heldur þvert á móti minnki líkurnar á að psoriasis sjúklingar fái krabbamein. Nýleg rannsókn leiddi í ljós að engin ein meðferð eykur hættuna á krabbameini, sem bendir til þess að sjúkdómurinn sjálfur veki áhættuna.

Lifrarsjúkdómar

Fólk með psoriasis í húð og liðum er í aukinni hættu á að þróa með sér fitulifrarkvilla án áfengis sem kallast NAFLD (nonalcoholic fatty liver disease). Í einni rannsókn frá árinu 2009 kom í ljós að einstaklingar með NAFLD voru yfirleitt með hátt PASI gildi* óháð því hvað þau voru búin að vera lengi með psoriasis, aldri, kyni, líkamsbyggð og áfengisneyslu.
*PASI gildi stendur fyrir Psoriasis Area and Severity Index og felur í sér aðferð sem notuð er til að meta útbreiðslu, roða og þykkt psoriasis útbrota.


Lithimnubólga

Lithimnubólga er bólga í miðjulögum augans sem samanstendur af lithimnu (iris), æðahimnu (choroid) og brárkleggja (cilliary body) sem framleiðir augnvökvann. Psoriasissjúklingar eru í aukinni hættu á að fá lithimnubólgu samkvæmt nýlegum rannsóknum. Yfirleitt þarf sérstaka meðferð við einkennum lithimnubólgu.

Offita

Mikil tengsl eru á milli psoriasis og offitu. Fólk með alvarleg einkenni af  psoriasis gigt er í enn meiri áhættuhópi, en samkvæmt nýlegri rannsókn greindust 44% psoriasissjúklinga, með offitu.
Notaður er líkamsþyndarstuðull (BMI) við skilgreiningu á offitu þar sem formúlan (þyngd/hæð2) er notuð til að meta hvort viðkomandi sé of þungur. Rannsóknir sýna að það að léttast getur minnkað einkenni psoriasis.

Sykursýki

Psoriasissjúklingar eru í aukinni hættu á að fá týpu 2 af sykursýki samkvæmt rannsókn frá árinu 2012. Týpa 2 af sykursýki er að mestu áunnið heilsufarsvandamál og orsakast af því að þegar framleiðsla insúlíns í líkamanum er ekki nægilega mikil. Einkenni sykursýkis eru þorsti, þreyta, tíð þvaglát, lystarleysi og þyngdartap, sýkingar í húð og slímhúð og kláði umhverfis kynfæri.

Þunglyndi og kvíði

Psoriasis í húð og liðum getur valdið fólki mikilli andlegri vanlíðan og getur einnig haft áhrif á sjálfstraust. Rannsókn sem birt var í Journal of Rheumatology í maí 2014 sýnir fram á að fólk með psoriasis gigt er í meiri hættu á að verða fyrir þunglyndi og kvíða en þeir sem eru einungis með psoriasis í húð. Þar kom fram að 36,6% þátttakenda með psoriasis gigt, þjáðust af kvíða á meðan 22,2 þjáðust af þunglyndi. Rannsóknir sýna einnig að meðhöndlun psoriasis getur létt einkenni þunglyndis.

Greinin birtist í Tímariti Spoex árið 2016

Read more

Psoriasis í húð

Birtingarmynd psoriasis í húð er mismunandi eftir sjúklingum. Blettirnir eiga það þó sameiginlegt að vera rauðir og/eða hreistraðir.
Stærð þeirra getur verið allt frá litlum í stærri bletti og staðsetning þeirra getur verið um allan líkamann.

Eðli málsins samkvæmt eru blettirnir erfiðari viðureignar þegar þeir lenda á viðkvæmum stöðum eða svæðum sem verða fyrir miklu álagi t.d vegna hreyfingar.

Sjúkdómurinn getur verið mjög sársaukafullur og hamlandi en einnig er hægt að vera með minniháttar útbrot sem trufla ekki mikið.
Allt er þetta mismunandi frá sjúklingi til sjúklings eftir gerð psoriasis og staðsetningu.


Algengast er að fá einkenni í hársverði, efri líkama, á hnjám eða olnbogum en einnig á höndum, fótum, nöglum inn í eyru og í húðfellingar, þar á meðal kynfærasvæðið.

Eftirfarandi eru algeng einkenni psoriasis, hægt er að vera með nokkur eða öll einkennin.


Algengustu einkenni psoriasis í húð eru:

 • Blæðandi húðsprungur
 • Silfraðar húðflögur
 • Litlir rauðir flekkir
 • Rauð þykkildi eða húðbólga
 • Sviði, kláði eða eymsli
 • Sprungur eða litlar dældir í nöglum
Read more